Niðurstöður rannsóknarfyrirtækja nálægt raunfylgi í alþingiskosningum
Kannanir Prósents á fylgi flokka í aðdraganda alþingiskosninga
Prósent mældi fylgi flokka vikulega frá því að ríkisstjórnarsamstarfinu var slitið þann 14. október til 28. nóvember eða tveimur dögum fyrir alþingiskosningar. Núna er búið að telja upp úr kjörkössunum og óskum við nýkjörnum þingmönnum velfarnaðar í störfum. Lokakönnun Prósents fyrir alþingiskosningar var framkvæmd dagana 25.-28. nóvember og má nálgast nánari upplýsingar um hana í frétt Prósents sem var birt 29. nóvember síðastliðinn.
Lokakönnun Prósents var að jafnaði 1,6% frá raunfylgi í alþingiskosningum.
Auk Prósents gerðu Gallup og Maskína reglulega kannanir í aðdraganda kosninga.
Gallup framkvæmdi könnun 23.-29. nóvember og voru niðurstöður hennar að jafnaði 0,9% frá raunfylgi.
Maskína framkvæmdi könnun 23.-28. nóvember og voru niðurstöður hennar að jafnaði 1,6% frá raunfylgi.
Lokakönnun Maskínu sem var framkvæmd dagana 28.-29. nóvember var að jafnaði 1,4% frá raunfylgi.
Hér má sjá samanburð á niðurstöðum lokakönnunar Prósents bornar saman við niðurstöður alþingiskosninga:
Flokkar | Niðurstöður kosninga | Fylgi í könnun | Munur |
Samfylkinguna | 20,8% | 21,8% | -1,0% |
Viðreisn | 15,8% | 17,6% | -1,8% |
Sjálfstæðisflokkinn | 19,4% | 14,7% | 4,7% |
Miðflokkinn | 12,1% | 12,0% | 0,1% |
Flokk fólksins | 13,8% | 11,2% | 2,6% |
Framsóknarflokkinn | 7,8% | 6,4% | 1,4% |
Sósíalistaflokkinn | 4,0% | 5,8% | -1,8% |
Pírata | 3,0% | 5,5% | -2,5% |
Vinstri græn | 2,3% | 3,4% | -1,1% |
Lýðræðisflokkinn | 1,0% | 1,2% | -0,2% |
Ábyrga framtíð | 0,0% | 0,4% | -0,4% |
Tafla 1. Samanburður á niðurstöðum kosninga og fylgi í könnun Prósents 28. nóvember 2024 ásamt mun í prósentum. Að jafnaði 1,6% frá raunfylgi.
Nánari upplýsingar um fylgi hvers flokks í könnunum Prósent:
Samfylkingin hlaut flest atkvæði í kosningunum eins og lokakönnun Prósents sýndi fram á og hlaut 20,8% atkvæða. Samfylkingin var í upphafi mælinga allra stærsti flokkurinn með 24,7% fylgi á tímabilinu 14. til 24. október, fór niður á við á tímabilinu 25. október til 21. nóvember en hækkaði sig svo marktækt og endaði í 21,8% fylgi tveimur dögum fyrir kosningar, öryggisbilið miðað við 95% vissu var 20,0-23,7% og var því fylgið innan vikmarka.
Sjálfstæðisflokkurinn hlaust næstflest atkvæði í kosningunum og hlaut 19,4% atkvæða sem var marktækt hærra hlutfall en lokakönnun Prósents sýndi fram á. Sjálfstæðisflokkurinn var upphaflega með tæpt 13,8% fylgi, lækkaði marktækt á tímabilinu 8. til 21. nóvember og hækkaði að lokum fylgi sitt í 14,7%. Fylgi Sjálfstæðisflokksins jókst mjög hratt á síðustu dögum mælinga og fór frá 11,8% fylgi dagana 8.-21. nóvember í 14,7% fylgi dagana 25.-28. nóvember og var öryggisbilið 13,2-16,3%. Í lokakönnun Prósent bætti Sjálfstæðisflokkurinn við sig 2,1% fylgi dagana 27.-28. nóvember í samanburði við dagana 25.-26. Nóvember og var þá kominn upp í 16,8%. Gera má því ráð fyrir að Sjálfstæðisflokkurinn hafi virkilega aukið fylgi sitt á lokametrunum.
Í frétt sem Prósent birti á föstudaginn síðastliðinn var meðal annars rætt um vissu kjósenda sem mögulega skýringu að Sjálfstæðisflokkurinn fengi fleiri atkvæði en lokakönnunin gaf til kynna:
Þátttakendur sem tóku afstöðu til flokka voru spurðir um hversu vissir þeir væru að þeir ætluðu að kjósa flokkinn. Spurningin var svohljóðandi:
Hversu viss ert þú um að þú ætlir að kjósa {nafn flokks} í næstu þingkosningum?
Meðalvissa þátttakenda var 90%. Marktækur munur var á vissu eftir flokkum. Kjósendur Sjálfstæðisflokksins voru marktækt vissari en kjósendur annarra flokka eða 95% vissir. Kjósendur Pírata voru marktækt minna vissir en kjósendur flestra annarra flokka eða 84% vissir. Þessar niðurstöður gætu bent til þess að Sjálfstæðisflokkurinn fái aðeins meira fylgi úr kjörkössunum en könnunin bendir til auk þess sem Píratar gætu endað með aðeins minna fylgi.
Viðreisn hlaut þriðja mesta fylgið í nýafstöðnum alþingiskosningum og hlaut flokkurinn 15,8% atkvæða. Viðreisn var sá stjórnmálaflokkur sem rokkaði mest í fylgi í skoðanakönnunum Prósents vikurnar fyrir kosningar. Á tímabilinu 14.-24. október var fylgi þeirra 14,6%, þau juku svo hratt við fylgi sitt næstu vikurnar sem fór hæst í 21,7% en enduðu í 17,6% í lokakönnun og var öryggisbilið 16,0-19,4%. Viðreisn hlaut því aðeins færri atkvæði en í lokakönnun Prósents og gæti mögulega verið að hlutfall af atkvæðum þeirra hafi farið til Sjálfstæðisflokksins í staðinn. Auk þess var bent á í frétt Prósents sem var birt á föstudaginn síðastliðinn að kjörsókn árið 2021 var minni hjá yngstu aldurshópunum en hjá þeim sem eldri og ef kjörsóknin verður svipuð eftir aldri í ár gæti það gefið til kynna að flokkar sem eru með meira fylgi hjá þeim sem yngri eru gætu endað með minna fylgi. Viðreisn var í lokakönnun Prósents með 23,0% fylgi hjá einstaklingum á aldrinum 18 til 34 ára en aðeins 10,8% fylgi hjá einstaklingum 55 ára og eldri.
Flokkur fólksins er fjórði stærsti flokkurinn á Alþingi og hlaut 13,8% atkvæða. Fylgi flokks fólksins var mjög stöðugt í könnunum Prósents fyrir kosningar og var alltaf um 11% Í lokakönnun var fylgi Flokks fólksins 11,2% og var öryggisbilið 9,9-12,7%. Flokkur fólksins fékk því fleiri atkvæði en kannanir gáfu til kynna. En möguleg útskýring eins og kom í frétt Prósents sem var birt á föstudaginn síðastliðinn er að fylgi flokksins er hæst hjá 55 ára og eldri eða 16,4% en aðeins 6,3% hjá 18 til 34 ára. Kjörsókn í alþingiskosningum árið 2021 var mun hærri hjá elstu aldurshópunum en þeim yngri sem gefa til kyna að flokkar sem eru með Meira fylgi hjá þeim sem eldri eru gætu endað með meira fylgi.
Miðflokkurinn er fimmti stærsti flokkurinn á Alþingi og hlaut 12,1% atkvæða. Miðflokkurinn mældist hæstur á upphafstímabilinu 14.-24. október þar sem hann var með 15,7% fylgi en fylgið dalaði svo og endaði í 12,0% í lokakönnun, öryggisbilið var 10,6-13,5%.
Framsóknarflokkurinn var sjötti og síðastnefndi flokkurinn til að ná mönnum inn á þing og hlaut hann 7,8% atkvæða. Framsóknarflokkurinn mældist nokkuð stöðugur í könnunum Prósents fyrir kosningar með 5,0-6,4% fylgi, í lokakönnun var fylgið 6,4% og var öryggisbilið 5,3-7,5%. Framsóknarflokkurinn hlaut því aðeins hærra en efra öryggisbilið í lokakönnun. Ástæðna gæti verið að Framsóknarflokkurinn hafi aukið við fylgi sitt á síðustu tveimur dögum fyrir kosningar.
Aðrir flokkar
Einnig voru Sósíalistaflokkurinn, Píratar, Vinstrigræn, Lýðræðisflokkurinn og Ábyrg framtíð í framboði en þessir flokkar fengu ekki mann kjörinn á þing. Þessir flokkar hlutu samtals 10,3% atkvæða.
Þróun á fylgi á milli tímabila hjá Prósenti
Mynd 1. Þróun á fylgi flokka frá 14. október til 28. nóvember 2024.