Sjálfbærniásinn: Nýr mælikvarði sem mælir viðhorf almennings til  frammistöðu íslenskra fyrirtækja í sjálfbærni kynntur

Sjálfbærniásinn er nýr mælikvarði til að meta viðhorf almennings til frammistöðu íslenskra fyrirtækja og stofnana í sjálfbærni. Niðurstöður Sjálfbærniássins 2024 verða kynntar þann 4. september kl. 9.15 í Opna háskólanum í Háskólanum í Reykjavík og fyrirtækjum sem skara fram úr veitt viðurkenning. Þessi mæling er svar við aukinni kröfu frá viðskiptavinum og öðrum hagaðilum á fyrirtæki að leggja áherslu á sjálfbærni. Að verkefninu standa Prósent, Langbrók og Stjórnvísi.

Markmið Sjálfbærniássins

  • Veita hlutlausar og samanburðarhæfar upplýsingar um viðhorf almennings til þess hvernig íslensk fyrirtæki standa sig í sjálfbærnimálum.
  • Hvetja íslensk fyrirtæki til að leggja enn meiri áherslu á sjálfbærni.
  • Hjálpa fyrirtækjum að skilja mikilvægi þess að upplýsa almenning um að stefnu sína og verkefni sem snúa að sjálfbærni og samfélagslegri ábyrgð.
  • Auka vitund neytenda um mikilvægi sjálfbærni og hvernig þeir geta haft áhrif með kauphegðun sinni.
  • Vera íslenskum fyrirtækjum hvatning til að leggja enn frekari áherslu á þessi mál.

Framkvæmd og þátttakendur

Rannsóknin er framkvæmd af rannsóknarfyrirtækinu Prósenti. Framkvæmdatími var frá janúar til ágúst 2024 og var um að ræða netkannanir sem voru sendar á handahófskennt úrtak úr könnunarhópi Prósents sem inniheldur 15.000 Íslendinga, 18 ára og eldri.

Könnunin

Könnunin samanstendur af sex spurningum sem kanna viðhorf neytenda til frammistöðu fyrirtækja í sjálfbærnimálum. Spurningarnar snúa meðal annars að því hvort að fyrirtæki leggi sitt af mörkum til samfélagsins, hvort þau hugi að velferð viðskiptavina og hvort að þau leitist við að lágmarka sóun.

Markaðir og niðurstöður

Í ár voru 47 fyrirtæki mæld sem starfa á 14 mismunandi mörkuðum. Á meðal þeirra markaða sem voru mældir eru fjarskipti, bankar, tryggingar, orkufyrirtæki og matvöruverslanir.

Verðlaunaafhending

Viðurkenningar verða veittar á hverjum markaði fyrir sig auk þess sem fyrirtæki sem mælast með afbragðsgóða einkunn fá sérstaka viðurkenningu. Fyrirtæki sem fá viðurkenningu munu fá tækifæri til að nota merki Sjálfbærniássins í markaðsstarfi sínu sem undirstrikar frammistöðu þeirra í sjálfbærni að mati almennings. Vinningshöfum verður þannig veittur heiður sem getur styrkt orðspor og ímynd fyrirtækisins.

„Við hjá Stjórnvísi höfum mikla trú á að Sjálfbærniásinn ýti undir jákvæða þróun í íslensku atvinnulífi og skapi sér sess sem mikilvæg viðurkenning til þeirra vinnustaða sem leggja áherslu á sjálfbærni og virkt framlag í baráttunni gegn loftslagsvánni. Við göngum því til þátttöku í þessu frumkvöðlaverkefni okkar góðu samstarfsaðila með mikilli tilhlökkun.“

Gunnhildur Arnardóttir, framkvæmdastjóri Stjórnvísi.

„Við höfum lagt mikla vinnu í að þróa Sjálfbærniásinn með því að styðjast við mælikvarða sem hafa verið notaðir á alþjóðlegum mörkuðum. Leit okkar að besta mælikvarðanum tók um ár og í ár voru skoðuð 47 fyrirtæki á 14 mörkuðum. Mælingin sýnir skýra mynd af viðhorfi fólks til þeirra fyrirtækja sem eru mæld og við vonum að niðurstöðurnar verði hvatning til fyrirtækja að vanda enn frekar til verka í þessum málum og miðla upplýsingum um samfélagslega ábyrgð sína.“

Trausti Heiðar, framkvæmdastjóri Prósents.

Kynning á Sjálfbærniásnum

Kynningin fer fram í Opna háskólanum í Háskólanum í Reykjavík þann 4. september. Öll sem hafa áhuga á sjálfbærnimálum og samfélagslegri ábyrgð fyrirtækja eru hvött til að mæta og kynna sér þetta nýja mælitæki sem getur haft mikil áhrif á íslenskt atvinnulíf. Í haust mun Opni háskólinn setja upp Sjálfbærniskólann í samstarfi við Festu.

Sjálfbærniásinn er mikilvægt skref í átt að aukinni sjálfbærni í íslensku samfélagi og hvetur fyrirtæki til að standa sig enn betur í þessum mikilvægu málum.

Hér er vefur með ítarlegri upplýsingum um Sjálfbærniásinn.