Eigendaskipti hafa orðið á Zenter rannsóknum ehf., en fyrirtækið framkvæmir markaðs-, viðhorfs-, þjónustu- og vinnustaðarannsóknir meðal íslenskra neytenda og fyrirtækja og annast m.a. framkvæmd á Íslensku ánægjuvoginni.
Trausti Haraldsson, framkvæmdastjóri, sem hóf störf hjá Zenter rannsóknum árið 2015, hefur keypt út eldri eigendur fyrirtækisins og er hann nú meirihlutaeigandi í nýju félagi, Prósenti ehf.
Auk Trausta hefur lykilstarfsfólk eignast hlut í fyrirtækinu ásamt því sem nýir eigendur stíga inn. Engar breytingar verða á högum Zenter ehf. sem annast þróun og rekstur hugbúnaðar sem sérsniðinn er að vinnu í markaðsmálum.
Nýjar áherslur
Niðurstaða stefnumótunarvinnu í kjölfar eigandaskiptanna var að breyta nafni Zenter rannsókna ehf. og þróa nýja ásýnd vörumerkisins. Sú vinna var framkvæmd í góðu samstarfi við auglýsingastofuna Brandenburg.
„Með aðkomu nýrra eigenda og nýjum áherslum teljum við okkur geta blásið til nýrrar sóknar. Við viljum þróa þjónustuframboð okkar í takt við tíðarandann hverju sinni, ná betri fókus á því sem við höfum staðið okkur vel í og halda áfram að vera fagleg og praktísk. Sem dæmi munum við kynna nýjar lausnir og mælingar á næstunni. Með því að fá nýja hluthafa í liðið þá styrkjum við framvarðasveitina, praktísku ráðgjöfina og stækkum þann reynsluheim sem við vinnum út frá,“ segir Trausti Haraldsson, framkvæmdastjóri Prósents ehf., sem unnið hefur fyrir mörg stærstu fyrirtæki landsins og hefur mikla reynslu og þekkingu í rannsóknum, stefnumótun, markaðs-, sölu- og þjónustustjórnun. Trausti, sem er með B.Sc.-gráðu í viðskiptafræði og M.Sc.-gráðu í markaðsstjórnun, starfaði áður sem ráðgjafi hjá Capacent/Gallup og þar áður sem verkefnastjóri yfir stefnu Íslandsbanka.
Ný í eigendahópi Prósents
Edda Sólveig Gísladóttir kemur ný inn í eigendahóp Prósents og mun hún starfa við hlið Trausta sem sérfræðingur í ráðgjöf rannsókna. Edda hefur áratugalanga reynslu af ráðgjafarstörfum og stefnumótun, vörumerkjauppbyggingu og markaðsmálum hjá fyrirtæki sínu, Kapli markaðsráðgjöf, en einnig úr starfi sem markaðsstjóri Bláa lónsins í tíu ár. Edda, sem er með M.Sc. í alþjóðamarkaðsfræði frá University of Strathclyde í Glasgow og B.Sc. í rekstrarfræði frá Háskólanum á Akureyri, hefur haldið fjölda fyrirlestra og sinnt kennslu í markaðsfræði.
Auk lykilstarfsfólksins, Atla Geirs Hallgrímssonar, Bryndísar Marteinsdóttur og Katrínar Þyri Magnúsdóttur, hafa Árni Árnason og Guðmundur Tómas Axelsson bæst í eigendahópinn. Árni nýtur langrar reynslu af auglýsinga- og markaðsmálum, bæði sem fyrrverandi eigandi og stofnandi auglýsingastofunnar Árnasynir og sem kennari í markaðsfræði við Háskóla Íslands. Guðmundur er eigandi upplýsingatæknifyrirtækisins WebMo Design. Hann hefur mikla reynslu af markaðsmálum, m.a. frá störfum sínum í fjármálageiranum og sem markaðsstjóri Reiknistofu bankanna, RB.
Zenter ehf. heldur áfram með óbreyttu sniði
Þrátt fyrir breytingar á nafni Zenter rannsókna ehf. verður Zenter ehf. rekið áfram með óbreyttu sniði. Zenter ehf. hefur frá árinu 2010 þróað og rekið hugbúnað sem inniheldur m.a. tölvupósts-, SMS-, CRM- og sölutækifæriskerfi (e. leads). Engin eignatengsl eru meðal Zenter ehf. og Prósents ehf. þó að samstarf hafi verið og verði áfram mikið.
MYND Eigendur Prósents – Frá vinstri talið: Katrín Þyri Magnúsdóttir, Bryndís Marteinsdóttir, Atli Geir Hallgrímsson, Guðmundur Tómas Axelsson, Trausti Haraldsson, Árni Árnason og Edda Sólveig Gísladóttir