Prósent notar eingöngu handahófskennd úrtök
Undanfarna daga og í tengslum við kannanir um forsetakosningar hefur umræða skapast um úrtök og aðferðafræði Prósents. Þessi umræða virðist vera byggð á misskilningi og skorti á upplýsingum og þekkingu og viljum við því árétta að Prósent notar eingöngu handahófskennd úrtök.
Um könnunarhópinn
Í dag eru um 15.000 einstaklingar 18 ára og eldri af öllu landinu skráð í könnunarhóp Prósents. Allar skráningar eru tengdar við kennitölu og getur því hver einstaklingur aðeins skráð sig einu sinni. Sendar eru út kannanir á handahófskennt úrtak úr könnunarhópnum á netföng þátttakenda. Niðurstöður eru vigtaðar út frá kyni, aldri og búsetu svo hægt sé að alhæfa um þær með 95% vissu. Niðurstöður eru ekki vigtaðar eftir menntun því ekki eru til raungögn um menntunarstöðu Íslendinga.
Handahófskennt úrtak úr þjóðskrá
Prósent hefur frá árinu 2015 safnað í könnunarhópinn sinn með því að hringja í handahófskennt úrtak úr þjóðskrá Íslands, 18 ára og eldri. Á síðustu 9 árum hefur verið hringt í yfir 100 þúsund einstaklinga af öllu landinu og hefur meirihluta þátttakenda verið safnað með þessum hætti.
Handahófskennt úrtak á samfélagsmiðlum
Í september árið 2021 byrjaði Prósent samhliða símhringingum að safna í könnunarhópinn með því að birta auglýsingar handahófskennt á samfélagsmiðlum. Um er að ræða viðurkennda aðferðafræði sem erlend rannsóknarfyrirtæki notast við. Ástæðan fyrir því að upphaflega var ákveðið að fara í þess konar herferðir er sú að sífellt færri eru með skráð símanúmer og þá sérstaklega yngra fólk. Ungt fólk svarar einnig síður í símann þegar hringt er. Setja má því spurningarmerki við það hvort að þessi fámenni hópur unga fólksins sem náð er til með úthringiherferðum endurspegli einstaklinga á þessum aldri. Rannsóknir benda hins vegar til að þessi hópur notar samfélagsmiðla á borð við Instagram mjög mikið.
Óvenjulegar skráningar tóku ekki þátt í könnunum
Fyrir mistök var undirsíða á vefsíðu Prósents sýnileg sem átti að vera falin frá apríl 2023 til maí 2024. Um var að ræða lendingarsíðu með skráningarformi í tengslum við söfnun á samfélagsmiðlum. Aðeins 23 einstaklingar skráðu sig á síðunni fyrir utan í apríl og maí á þessu ári þegar skyndilega bárust um 200 skráningar. Þau sem skráðu sig með þessum hætti í apríl og maí á þessu ári fengu ekki könnun frá Prósenti og var ekki bætt við í könnunarhópinn. Öðrum skráningum hefur verið eytt en þær voru aðeins 0,15% af heildarhópnum okkar og hafa því engin áhrif á niðurstöður okkar. Prósent biðst afsökunar á þessum mistökum.
Um túlkun skoðanakannana
Það er vert að hafa í huga við túlkun niðurstaðna skoðanakannana að þær endurspegla skoðanir þjóðarinnar þá stundina með ákveðnum vikmörkum. Þannig geta niðurstöður sem virðast við fyrstu sýn vera ólíkar verið samhljóða þegar vikmörk eru höfð í huga. Við trúum því að öll fyrirtæki á þessum markaði vinni faglega og reyni sitt ítrasta að endurspegla hvað þjóðin er að hugsa hverju sinni.