Kulnun Íslendinga á vinnumarkaði fyrir og eftir Covid
Prósent í samstarfi við Mannauður, félag mannauðsfólks á Íslandi, SVÞ og Stjórnvísi kynna spennandi fyrirlestur um kulnun Íslendinga á vinnumarkaði.
Prósent hefur framkvæmt rannsókn á kulnun meðal Íslendinga á vinnumarkaði frá árinu 2020.
Rannsóknarmódelið sem notast var við til mælinga er 12 spurninga styttri útgáfa af Maslach kulnunarmódelinu (MBI). Mældar eru þrjár víddir; tilfinningaleg örmögnun (e. emotional exhaustion), sjálfshvarf (e. depersonalization) og tilfinning fyrir lágum persónulegum árangri (e. a sense of low personal achievement).
Markmið fundar er að kynna hvernig staðan á vinnumarkaðinum er m.t.t. kulnunarstigs, hver staðan er fyrir og eftir Covid og þróunina á milli þessara tímabila. Einnig verður kafað dýpra til að skoða hvort munur sé á milli hópa út frá starfi, fjölda tíma sem starfsfólk vinnur á viku, munur á opinbera geiranum og einkageiranum, kyni, aldri, búsetu, menntun og tekjum.
Niðurstöður könnunar árið 2021 leiddu meðal annars í ljós að 32% Íslendinga 18 ára og eldri á vinnumarkaði finnast þeir vera útkeyrðir í lok vinnudags oftar en einu sinni í viku. 21% svarenda finnast þeir tilfinningalega úrvinda vegna vinnu sinnar oftar en einu sinni í viku og 12% finnast þeir vera útbrenndir vegna starfs síns oftar en einu sinni í viku.
Kynningin verður fimmtudaginn 29. september á milli klukkan 9:00-10:00 í fundarsalnum Hyl í Húsi atvinnulífsins, Borgartún 35, 105 Reykjavík.
Viðburðurinn er öllum opinn en skráning er nauðsynleg. SVÞ sér um utanumhald um skráningu. Nánar hér https://svth.is/vidburdir/kulnun-islendinga-a-vinnumarkadi-fyrir-og-eftir-covid/