Af hverju nýtt nafn?

Zenter rannsóknir ehf. var stofnað árið 2015 með það að markmiði að framkvæma alhliða rannsóknir. Zenter rannsóknir ehf. var hluti af fyrirtækinu Zenter ehf. sem var stofnað árið 2010 og einblínir á Zenter hugbúnaðinn sem inniheldur m.a. tölvupóst-, SMS-, CRM- og sölutækifæriskerfi (e. leads).

Á þeim 6 árum síðan rannsóknarhlutinn var stofnaður hefur mikið vatn runnið til sjávar. Umfang starfsemi Zenter rannsókna hefur aukist hægt og örugglega og í kjölfarið hefur ákveðins misskilnings gætt á meðal viðskiptavina og markaðarins varðandi aðgreiningu þessara tveggja fyrirtækja og þeirrar starfsemi sem hvort um sig sinnir.

Með komu nýrra eigenda inn í Zenter rannsóknir var ákveðið að slíta alfarið naflastrenginn og koma með nýtt nafn fyrir rannsóknarhlutann. Í dag eru engin eignatengsl á milli þessara tveggja fyrirtækja en mjög gott samstarf.

Að finna nýtt nafn fyrir fyrirtækið

Hvað skyldi þá nýja fyrirtækið heita? Sett voru þau skilyrði að nafnið þyrfti að vera íslenskt en um leið hafa þann möguleika að vera notað erlendis. Ekki væri verra ef .is lénið væri laust og að nafn fyrirtækisins hefði ákveðna sérstöðu og/eða væri ekki líkt öðrum fyrirtækjum skv. fyrirtækjaskrá. Jafnframt þyrfti nafnið að vera með einhverja tengingu við kjarnastarfsemi fyrirtækisins sem eru öflun, úrvinnsla og framsetning gagna.

Rannsóknarfyrirtækið framkvæmir rannsókn

Þar sem við erum rannsóknarfyrirtæki þá voru hæg heimatökin að nýta aðferðir sem við beitum daglega fyrir okkar viðskiptavini, þ.e. að framkvæma eigindlegar og megindlegar rannsóknir.

Í upphafi var farið í stefnumótun þar sem núverandi staða var greind; hvert við ætlum að fara og hvernig við komumst þangað. Var sú vinna unnin með starfsfólki fyrirtækisins, núverandi viðskiptavinum og aðilum á markaðnum sem voru ekki í viðskiptum við okkur en voru að nýta sér þjónustu samkeppnisaðila. Eftir að búið var að lista upp um 200 vænleg nöfn á nýja fyrirtækið voru 10 nöfn tekin fyrir í rýnihópi sem samanstóð af núverandi sem og vænlegum viðskiptavinum.

Eftir þá vinnslu var ákveðið að leita til sérfræðinga og varð auglýsingastofan Brandenburg fyrir valinu. Fyrsta ferlið þar var að taka fyrir eldri nöfn sem höfðu komið til greina ásamt því að finna ný nöfn sem ekki höfðu áður komið fram.

Eftir ítarlega síun og einkunnagjöf enduðum við með sjö nöfn sem voru síðan prófuð á núverandi og vænlegum viðskiptavinum okkar. Eftir þann rýnihóp var könnun send á viðskiptavini okkar.

Í þessum greiningum var samkeppnin greind, hvað einkennir hvert fyrirtæki? og hvað er aðgreinandi í þjónustu okkar samanborið við samkeppnina? Að auki var einkunn gefin fyrir hvert nafn út frá því hversu:

það þætti og hversu líklegt það væri að viðskiptavinir myndu vilja eiga viðskipti við fyrirtæki sem bæri þessi nöfn. Eftir þessa greiningu trónuðu tvö nöfn á toppnum. Annað nafnið var því miður of líkt nafni á öðru fyrirtæki sem er starfandi á íslenskum markaði en eftir sat nafn sem tikkaði í öll boxin og varð því fyrir valinu.

Barnið skyldi heita Prósent

Eftir stóð nafnið Prósent. Nafnið er kannski ekkert svakalega frumlegt en þetta er sterkt, fallegt, einfalt og eftirminnilegt nafn og ef rannsóknarfyrirtæki sem birtir niðurstöður í prósentum ætti ekki að heita Prósent, hvaða fyrirtæki þá? Eftir að tekin hafði verið ákvörðun um nýja nafnið tók Brandenburg við boltanum, hannaði vörumerkið og allt varðandi framsetningu þess og erum við afskaplega ánægð með útkomuna.

logo prósent png

Hvað lærðum við á þessu ferli?

Það gæti hljómað einfalt og er kannski einfalt fyrir suma að finna nýtt nafn á fyrirtæki en hjá okkur tók heildarferlið tæpt ár. Við erum sannfærð um, að það að hafa farið í gegnum þetta ferli hafi skilað sér í rétta nafninu fyrir okkur. Að sjálfsögðu skiptir sjálft nafnið ekki öllu máli heldur hvað er á bak við það og ætlum við okkur að halda áfram að veita persónulega og góða þjónustu með virku samtali við okkar viðskiptavini.

Góðir hlutir gerast hægt!